140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Fyrst varðandi umræðuna um gildi þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem er fram undan. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, og ég nefndi í ræðu minni, að ef þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt í óbreyttri mynd er ekki verið að greiða atkvæði um stjórnarskrá lýðveldisins. Þetta er þvert á móti skoðanakönnun, nokkurs konar Gettu betur-keppni þar sem menn eiga að skora fyrir einhver svör en við vitum bara ekki úrslitin úr því fyrir fram. Það er einfaldlega vegna þess að túlkunin á svörunum verður svo mismunandi. Þetta er því hárrétt ábending hjá hv. þingmanni um fyrstu spurninguna í þessari skoðanakönnun. Af hálfu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar liggur meira að segja fyrir staðfesting á því, með skipan sérfræðinganefndarinnar, að gera þarf breytingar á þeirri tillögu sem stjórnlagaráðið skilaði forseta Alþingis í júlí á síðasta ári. Með þeirri könnun sem ætlunin er að láta gera er því verið að spyrja almenning hvort viðkomandi vilji leggja til grundvallar tillögur sem eru í vinnslu Alþingis. Plaggið er að því leyti til ófullkomið að verið er að inna fólk eftir afstöðu til skjals sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er nú þegar farinn að vinna að breytingum á. Af hverju bíða menn þá ekki með það, vinna sína vinnu og klára tillögu að endurskoðaðri eða nýrri stjórnarskrá, eftir því hvernig Alþingi vinnur úr því, og bera hana síðan undir almenning í landinu?

Ég held að ástæðan sé fyrst og fremst sú að við þá gjörð, í tengslum við slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, þyrfti að boða til almennra kosninga. Þess vegna (Forseti hringir.) dregur stjórnarmeirihlutinn þetta fram undir lok kjörtímabilsins.