140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni um fullveldisafsalið og það er mjög mikilvægt að verja fullveldið með kjafti og klóm. Ég er ánægður með að hv. þingmaður er ekki sammála flokkssystur sinni hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur hvað þetta snertir.

Ég vil líka taka undir þá breytingartillögu sem flutt er af hv. þm. Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal. Ég held að það væri mjög gott ef þjóðin yrði spurð um þetta, ef á annað borð á að fara af stað með einhvers konar Gettu betur-spurningakeppni, eins og hv. þingmaður lýsti þessum leiðangri. Það væri mjög fróðlegt að vita afstöðu þjóðarinnar í þessu efni, því að miðað við það sem maður heyrir úti í samfélaginu hygg ég að ekki sé vilji hjá þjóðinni til að afsala sér meira fullveldi en orðið er, heldur fremur í þá átt að styrkja það.

Maður heyrir að margir stjórnarliðar vilja ekki spyrja þessarar spurningar, ekki frekar en Evrópusambandsspurningarinnar, hvort þjóðin vilji halda aðildarviðræðunum áfram, þótt aðeins sé farið að brotna upp úr þeirri afstöðu. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Er ekki bara svo að ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar að hún vill ekki spyrja spurninga sem hún einfaldlega hræðist svörin við? Getur ekki verið (Forseti hringir.) að þjóðarviljinn sé annar en vilji ríkisstjórnarinnar í þessu efni?