140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ræðu hennar. Hún rifjaði upp núgildandi ákvæði stjórnarskrár um breytingar á stjórnarskrá sem auðvitað er mikilvægt að hafa í huga. Í þeim umræðum sem eiga sér stað á opinberum vettvangi um þessi mál er oft dálítið ruglað með þessa hluti og því er mjög þarft að rifja það upp á þessum stað í umræðunni.

Ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir að minnast aftur á ágætt minnisblað Bjargar Thorarensen, lagaprófessors og prófessors í stjórnskipunarrétti, frá því í marslok, þar sem hún kom á framfæri við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ábendingu um með hvaða hætti, og stjórnskipulega rétt, væri hægt að koma því í kring að bindandi atkvæðagreiðsla meðal þjóðarinnar færi fram um nýja stjórnarskrá eða stjórnarskrárbreytingar. Það var mjög þarft innlegg frá Björgu Thorarensen í starf nefndarinnar en passaði hins vegar ekki við áætlun meiri hlutans þannig að ekki var meira gert með þetta minnisblað.

Ég skora á hv. þingmenn að kynna sér þetta efni vegna þess að þarna er komið með yfirveguðum hætti til móts við þau sjónarmið að eðlilegt sé að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um nýja stjórnarskrá, sem mörgum finnst mikilvægt. Ég ætla ekki að gera lítið úr því en finnst rétt að það sé þá gert þegar tillaga að nýrri stjórnarskrá liggur fyrir en ekki einhvers staðar á leiðinni þangað.

Við stöndum frammi fyrir því í dag að ætlunin er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í miðjum klíðum og niðurstöður hennar munu gefa mjög takmarkaða mynd og vera lítið til leiðsagnar fyrir þá sem fá málið síðan í hendurnar næsta haust.