140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:29]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég hef brotið heilann dálítið um uppleggið í því máli sem hér liggur fyrir. Eins og margoft hefur komið fram er um að ræða sex spurningar sem ætlunin er að bera fram og setja í almenna atkvæðagreiðslu meðal þjóðarinnar.

Hvernig svo sem ég hef reynt að nálgast þetta mál þá sé ég ekki að með neinum hætti sé hægt að leggja það út á þann veg að sú atkvæðagreiðsla sé atkvæðagreiðsla um stjórnarskrártillögu. Sú bábilja er hins vegar uppi og því er haldið að fólki að sú atkvæðagreiðsla sem að er stefnt sé atkvæðagreiðsla um já eða nei um eina tillögu að nýrri stjórnarskrá. Ég er dálítið hugsi yfir því og vildi gjarnan heyra hvort hv. þingmaður telur að þær spurningar sem lagðar eru fram í breytingartillögunni komi til með að aðstoða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd við að komast að einhverri niðurstöðu um þau mál sem verið er að spyrja út í.

Hefur nefndin til dæmis tekist á um einhverjar mismunandi leiðir varðandi umræðu um persónukjör í kosningum? Ég hef einfaldlega ekki áttað mig á því til hvers þetta plagg er sett upp með þessum hætti, hvers vegna farið er af stað í þessa vegferð því að tilfinning mín er sú að vinnan öll sé eftir. En ég vona að hv. þingmaður geti staðfest að þetta sé misskilningur hjá mér. En ef svo er ekki þá þykir mér illa farið með tíma, verkefni og fjármuni við þá framkvæmd sem hér er stefnt að.