140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og nokkuð hlý orð í garð okkar sjálfstæðismanna.

Það vakti athygli mína í ræðu hv. þingmanns að hann ræddi þá tilhneigingu í þessu máli að láta stjórnarskrána líta út eins og stefnuskrá stjórnmálaflokks. Þá rann upp fyrir mér svarið við því sem ég hafði hugsað mér að spyrja hv. þingmann um. Ég hef nefnilega velt því mikið fyrir mér í þessu máli hvers vegna einungis þessar spurningar eru lagðar fram af meiri hluta nefndarinnar. Af hverju eru bara þessar sex spurningar eða þessi fimm atriði? — fyrst er verið að ræða frumvarpið í heild. Af hverju er ekki spurt um allt hitt fyrst farið er af stað?

Við sjáum af þeim fjölda breytingartillagna sem komið hafa fram að enginn skortur er á góðum hugmyndum að spurningum ef það verður ofan á að fara þessa leið. Þá held ég að það sem hv. þingmaður sagði sé svarið við spurningunni. Þarna er einmitt verið að koma atriðum á framfæri sem eiga frekar heima í stefnuskrá stjórnmálaflokks en í stjórnarskrá. Ég vil biðja hv. þingmann um að svara mér því til hvort ég skilji orð hans rétt.

Ég vil líka, vegna þess að breytingartillögur hv. þingmanns komu til umræðu í ræðu hans, fá viðbrögð hans við ummælum þingflokksformanns Vinstri grænna, hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, sem talar um það á bloggsíðu sinni að breytingartillögurnar séu kjánalegar (Forseti hringir.) og spyr hvort Framsóknarflokkurinn haldi að fólk sé fífl.