140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég óttast það nefnilega að ríkisstjórnin ætli sér að reyna að ná í gegn breytingum á stjórnarskrá eða alveg nýrri stjórnarskrá sem líti út eins og kosningabæklingur þeirra flokka sem sitja í ríkisstjórn. Það má vel vera að ég verði sammála þeim um margt af því sem þar kemur fram en þá er líka mikilvægt að það séu atriði sem eru auðskiljanleg og framkvæmanleg, en seinni tvær breytingartillögur mínar lúta einmitt að því.

Stjórnarskrá þarf að vera þannig að allir skilji hana nokkurn veginn á sama hátt og það verður að vera hægt að framkvæma það sem þar stendur. Það dugar ekki að skrifa stjórnarskrá sem lýsingu á því hvernig menn vilji sjá heiminn, samsetningu af fögrum frösum, heldur verður að vera lýsing á grundvallarreglum sem við ætlum að notast við til að byggja upp hinn bjarta heim.

Seinni spurningin snerist um ummæli þingflokksformanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem ég hef hvorki séð né heyrt nema í endursögn hv. þingmanns. En ég velti mér ekki mikið upp úr því sem kemur út úr hv. þm. Birni Val Gíslasyni, formanni þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það er allt eins hægt að gelta á hund sem geltir á mann á götu eins og að brúka munn við hv. þm. Björn Val Gíslason, ég held það skili álíka miklu. Ég prófaði reyndar að gelta á hv. þingmann í mötuneytinu í fyrradag til að kanna hver viðbrögðin yrðu, en það skilaði heldur engu (Forseti hringir.) svo að ég læt það vera að svara hv. þingmanni.