140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forseta fyrir að minna hv. þingflokksformann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á mikilvægi þess að gæta orða sinna. Hann er að vísu ekki staddur í salnum en honum berst þetta vonandi til eyrna. Ég hugsa að ekki sé vanþörf á þessari áminningu frá virðulegum forseta.

En hvað varða spurningarnar …

(Forseti (ÞBack): Forseti vill leiðrétta misskilning. Forseti beindi orðum sínum til hv. þingmanns.)

Nei, það getur ekki verið, frú forseti. Þá hefur frú forseti ekki fylgst með hinum fjölmörgu og skrautlegu ummælum þingflokksformannsins.

Svo ég komi mér að því að svara spurningu hv. þingmanns þá finnst mér það liggja beint við að ef farið verður út í svona skoðanakönnun eða atkvæðagreiðslu verði spurt hvort menn vilji hugsanlega óbreytta stjórnarskrá. Það er augljós spurning, finnst mér, ef á annað borð er farið út í svona verkefni. Þó að það væru bara tvær spurningar, jafnvel þó að það væri bara ein spurning þá yrði hún líklega þessi. Hún gefur að minnsta kosti einhverja raunverulega niðurstöðu. Ef svarið er á þann veg að menn vilja halda óbreyttri stjórnarskrá þá liggur það bara fyrir, þá er komin eiginleg niðurstaða úr atkvæðagreiðslunni. Ef svarið er hins vegar á þann veg að menn vilja breytta stjórnarskrá þá opnar það á ýmsa möguleika.

Hvað varðar athugasemd hv. þingmanns um að breytt orðalag í stjórnarskrá breyti ekki eitt og sér hlutum til betri vegar þá er ég hjartanlega sammála því. Í ræðu sem ég flutti á Hólahátíð síðastliðið vor las ég einmitt nokkra kafla úr stjórnarskrá Sovétríkjanna sem fjölluðu allir um mikilvægi þess að lífið yrði betra fyrir alla þegna landsins og (Forseti hringir.) að frelsið yrði sem mest. En raunin varð síðan allt önnur, eins og menn þekkja.