140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var á margan hátt mjög athyglisverð og ekki síður það sem kom fram í andsvörum hv. þingmanns við fyrra andsvar.

Ég geri ráð fyrir því að ef viðbrögð stjórnarliða við breytingartillögum hv. þingmanns eru eins og hér var upplýst þá stafi þau af því að verið er að halda þeim veruleika að almenningi að á ferð sé atkvæðagreiðsla um stjórnarskrána og að allt sem raski þeirri áætlun stjórnarflokkanna að fólk haldi annað sé ekki til góðs.

Þær áherslur sem hv. þingmaður setur fram í breytingartillögum sínum eru þess eðlis að þær undirstrika þá skoðun að þetta sé enn meira og minna hugmyndasmiðja og ég tel nauðsynlegt að fá frekari útskýringar frá hv. þingmanni á þeim tveimur breytingartillögum sem hann komst ekki í að útskýra í ræðu sinni. Ég held að það sé mjög þarft fyrir málið til að undirstrika það hverju á að ná fram með þeirri skoðanakönnun sem gera á með einbeitta vilja í október í haust og kostar alla þessa fjármuni. Ef menn ætla sér að fara út í einhverja hugmyndasmíði er nauðsynlegt að fá frekari skýringar á breytingartillögunum sem hv. þingmaður komst ekki yfir að skýra hér áðan.