140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefndi dæmi um ákvæði sem einhverjir kynnu að vilja sjá í stjórnarskrá, þ.e. að öllum skuli tryggð sanngjörn laun fyrir vinnu sína. Ég get upplýst hv. þingmann um að þetta hefur verið prófað, meðal annars í sovésku stjórnarskránni. Það er kannski matsatriði hversu vel tókst til við framkvæmdina á því.

Það er nefnilega mjög mikilvægt að hægt sé að hrinda í framkvæmd öllu því sem stjórnarskráin mælir fyrir um. Það er líka mikilvægt að ljóst sé hvað það á að vera, það sé auðskiljanlegt, til að stjórnarskráin veiti það aðhald sem á þarf að halda og skapi festu og stöðugleika í stað þess að ýta undir óvissu og glundroða.

Það er ekki að tilefnislausu sem ég legg þetta til. Nokkrir hv. þingmenn hafa í umræðum um þetta mál rifjað upp ræðu forseta Íslands við þingsetninguna í október sl. þar sem hann fjallaði um túlkun sína á tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Svo komu aðrir álitsgjafar fram í fjölmiðlum og sögðust vera algjörlega ósammála, forsetinn hefði misskilið þetta. Hins vegar birtust nokkrir stjórnlagaráðsliðar, einn eða tveir eða þrír, og lýstu sig í grófum dráttum sammála forsetanum en nokkrir félagar þeirra höfðu allt annan skilning á tillögunni sem þeir höfðu þó í sameiningu unnið að því að skrifa.

Það er mjög hættulegt þegar stjórnarskrá er skrifuð á þann hátt að hægt er að túlka hana með mjög ólíkum hætti. Tilgangurinn með stjórnarskrá er ekki hvað síst sá að skapa stöðugleika, festu og vissu um nokkur grundvallaratriði. Hún má alls ekki vera til þess fallin að ýta undir óvissu og óstöðugleika.