140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:26]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ríkisstjórnin virðist einhvern veginn ná að sigla í strand öllum málunum sem hún lagði upp með og þá er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast.

Það er alveg rétt að ríkisstjórnin hefur fjallað um breytingar á stjórnarskránni. Sá leiðangur er þyrnum stráðum og sorgarsaga og mjög alvarleg þegar maður horfir á það til að mynda hvernig þetta byrjaði, kosningin á þessu stjórnlagaráði sem var síðan dæmt ógild af Hæstarétti. Síðan komu lög þar sem þessir einstaklingar voru skipaðir. Það er fyrsta ranga ákvörðunin sem var tekin. Þegar verið er að breyta stjórnarskrá skipar Alþingi ekki menn í stjórnlagaráð eftir að það er búið að dæma atkvæðagreiðslu ógilda í Hæstarétti.

Svona gætum við áfram talið, það eru auðvitað fleiri mál undir, t.d. sjávarútvegsmálið sem hefur velkst hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra, mál sem beinlínis mun leggja landsbyggðina af nái veiðigjaldið fram að ganga. (Gripið fram í: Rammaáætlun.) Ríkisstjórnarflokkarnir voru með rammaáætlunina á sinni könnu svo mánuðum skipti. Svo eru skuldamál heimilanna þar sem enn er verið að bíða eftir einhverju og Hreyfingin er búin að bíða síðan á jólum. Það er búið að draga hana á asnaeyrunum síðan um áramótin þar sem hún lofaði stuðningi við ríkisstjórnina og enn er verið að bíða og enn er alltaf eitthvað að koma.

Ég ætla ekki að gerast spámaður hvað þetta mál snertir en því miður er það svo með stóru málin að þau virðist daga uppi vegna innanflokksátaka og erja og einbeitts vilja til að vera í átökum frekar (Forseti hringir.) en að koma fram með lausir fyrir heimili og fyrirtæki.