140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður sat í hinni margfrægu þingmannanefnd sem var skipuð og fór yfir skýrslu og verk rannsóknarnefndar Alþingis. Hann fjallaði aðeins um þá skýrslu og þingmannaskýrsluna í ræðu sinni og vísaði í efnahagshrunið og þar fram eftir götunum. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvernig umræðan hafi verið um nýja stjórnarskrá í þingmannanefndinni, hvort mikið hafi verið talað um nauðsyn þess að skrifa nýja stjórnarskrá frá grunni, hvort almennur samhljómur hafi verið um það í nefndinni og hver fyrirferðin á því viðfangsefni hafi verið í nefndinni.

Það er annað sem ég veit að þingmannanefndin skoðaði sérstaklega og það voru úrbætur í stjórnsýslunni og á vinnubrögðum á Alþingi. Nefndin kom með tillögur um þau atriði. Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort honum finnist ferill þessa máls vera til eftirbreytni miðað við þau vinnubrögð sem átalin voru í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og þingmannanefndin fjallaði um. Er ferill þessa máls sem snertir grunnlög okkar til eftirbreytni? Telur hann að þetta leiði til þeirra úrbóta í stjórnsýslu og vinnubrögðum á Alþingi sem vonast var til?