140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:06]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru ágætar spurningar hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur.

Varðandi stjórnarskrárumræðuna í þingmannanefndinni var hún afar lítil. Ég held að ég geti fullyrt að ekki hafi hvarflað að nokkrum manni, ekki eftir því sem ég man, að stjórnarskráin sjálf hafi verið ástæða þess að hér varð hrun og þess vegna væri nauðsynlegt að taka hana til endurskoðunar. Hins vegar var lagt til í þingsályktunartillögu nefndarinnar að stjórnarskrá Íslands yrði skoðuð, löggjöf endurskoðuð eftir atvikum og undirbúin löggjöf á tilgreindum sviðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Meðal annars vegna þess að við vorum að fjalla um Icesave á þessum tíma var ákvæðið um þjóðareign á náttúruauðlindum nokkuð ofarlega í huga margra, en það hvarflaði aldrei að nokkrum manni að stjórnarskráin hefði verið undirrót hrunsins eða skaðvaldurinn í því efni. Hins vegar var bent á, eins og ég nefndi í ræðu minni, að aðrir þættir í stjórnkerfinu hefðu brugðist hrapallega og þar á meðal var bent á stjórnsýsluna.

Við vorum í talsverðum umræðum um Stjórnarráðið um daginn og veltum einmitt fyrir okkur hvort þau viðbrögð framkvæmdarvaldsins að breyta Stjórnarráðinu væru viðbrögð við þingmannaskýrslunni. Niðurstaða okkar, að minnsta kosti mín og ég man ekki til þess að neinn hafi mótmælt því, var sú að það væri ekki í anda hennar. Vinnubrögðin við breytingar á stjórnarskránni, á grunnlögum landsins, eru auðvitað til skammar, svo ég taki stórt upp í mig. Ef menn hefðu farið eftir þeim áherslum sem þingmannanefndin lagði til, hún benti á þær ávirðingar sem stjórnsýslan hafði sannarlega orðið fyrir — ef menn hefðu lært af þeirri reynslu hefðu þeir ekki farið fram með mál eins og hér hefur verið gert, (Forseti hringir.) hunsað Hæstarétt og annað í þeim dúr.