140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á marga áhugaverða þætti í ræðu sinni. Margir þeirra varða spurningar sem nefndar eru í þessari umræðu, bæði í tillögum meiri hlutans og eins í tillögum okkar í minni hlutanum og einstakra þingmanna sem margar hverjar eru vel þess virði að skoða og þörf væri á að fá í miklu ítarlegri umræðu um í þingsal áður en gengið verður til atkvæða.

Hins vegar er eitt atriði sem mér finnst sérstök ástæða til að draga fram á þessu stigi umræðunnar og það er sú meginspurning: Er skynsamlegt og er það gott vinnulag að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál í miðjum klíðum þegar viðurkennt er af flestra hálfu að vinna þurfi betur tillögurnar frá stjórnlagaráðinu? Ég segi af flestra hálfu vegna þess að innan dyra í þinginu hafa flestir tekið undir þau sjónarmið að tillögurnar séu ekki tilbúnar til að koma fram í frumvarpsformi nú þegar, það þurfi að leggja ákveðna vinnu af mörkum áður en slíkt verði hægt. Nýjasta útspil meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bendir einmitt til þess að það sé þeirra viðhorf þegar sagt er að verið sé að semja við hóp sérfræðinga á sviði lögfræði og stjórnskipunarréttar til að koma tillögunum í réttan lagalegan búning.

Ég vildi spyrja hv. þingmann eða biðja hann að deila með okkur hugsunum sínum um hvort þetta geti hugsanlega verið réttur tími til að efna til atkvæðagreiðslu af þessu tagi, hvort ekki væri réttara að bíða þar til (Forseti hringir.) vinnunni sé lokið.