140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að þeir sem sátu í stjórnlagaráðinu, þó að ég hafi ekki komið því að í ræðu minni áðan, hafi lagt sig alla fram og vandað sig við að setja saman tillögur. Það hefur líka komið fram í máli þeirra og vinnu þeirra að menn hafi orðið sammála um niðurstöðuna og þá gerist það jú gjarnan að einstaka tillögur verða málamiðlunartillögur og greinargerðin ber þess greinilega merki. Svo var líka gefinn knappur tími þannig að ég held að menn hafi ekki gaumgæft að lesa þetta saman þannig að þetta yrði heildstætt plagg. Mér fannst hugmynd meiri hlutans um að senda tillögurnar út sem heild og grundvöll frumvarps án þess að menn fjölluðu um þær mjög varhugaverð, svo ég taki ekki dýpra í árinni, einmitt vegna þess að greinargerðin er ófullnægjandi. Tillögur meiri hlutans snúa að fáum tilteknum atriðum og voru eins og ég lýsti í ræðu minni flumbrulegar, það þurfti að breyta þeim öllum eftir að landskjörstjórn hafði yfirfarið þær. Ég held þó að slíkar ábendingar hafi komið fram innan nefndarinnar og í þeim umsögnum sem ég hef kynnt mér bentu menn gjarnan á að þetta væri ótækt og gengi ekki.

Ég tel að skort hafi á efnislega umræðu og afleiðingin af því sé að fá þessar tillögur fram, hvorki fleiri né færri, og það vanti mjög mikilvæga málaflokka inn í. Ég rakti það aðeins í ræðu minni að ég teldi að þetta væri ekki rétt tímasetning og ekki rétt skipulag á vinnunni. Fyrst hefði átt skila skýrslu með tillögum til þingsins og síðan að fá sérfræðinga til að fara yfir þetta og ef menn sætu uppi með álitaefni væri (Forseti hringir.) skynsamlegast að leita til þjóðarinnar. Mér finnst ekkert að því að leita til þjóðarinnar en menn verða að vita til hvers þeir leita til þjóðarinnar.