140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessar hugleiðingar hv. þm. Birgis Ármannssonar sem situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég sit ekki þar og hef þar af leiðandi fyrst og fremst fengið upplýsingar frá fulltrúa okkar framsóknarmanna í þeirri nefnd. Hv. þingmaður staðfestir það sem ég hef áður heyrt, og hef líka kynnt mér með því að kíkja á og lesa einstaka umsagnir, að þar hafi bæði verið fróðlegt og áhugavert að sitja og margt hefur þar af leiðandi vel verið gert, ég ætla heldur ekki að gera lítið úr því, en líka að niðurstöður flestra sem hafa fjallað um málið hafi verið mjög gagnrýnar svo ekki sé meira sagt.

Niðurstaðan er alltaf sú sama, frú forseti, að ég tel líka eins og hv. þm. Birgir Ármannsson að hér sé verið í einhvers konar æfingum á formi í staðinn fyrir að fylgja eðlilegri málsmeðferð, að taka skýrsluna til umfjöllunar og finna þá á henni annmarka. Það virðist svo að fyrir fram hafi menn verið búnir að ákveða að ekki ætti að hrófla við þessu, þetta ætti að fara svona inn. Þegar menn komust að því að það var ekki hægt, væntanlega vegna þeirra umsagna sem bárust og gesta sem kallaðir voru fyrir nefndina, sáu menn að lokum ljósið að þetta gengi ekki. Þá var búið að setja af stað það ferli að leggja ákveðnar spurningar fyrir þjóðina, en um leið á að ráða ákveðinn hóp sérfræðinga til að yfirfara þetta sem hefði auðvitað verið hin rökrétta leið. Við getum svo deilt um hvort skipa hefði átt sérstaka þingnefnd eða fela stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd það verk að koma með mótaðar tillögur. Það er ekkert að því að bera á einhverjum tímapunkti spurningar undir þjóðina en menn verða að velja tímapunktinn, menn verða að velja spurningarnar eftir efnislega umræðu. En eftir stendur að enn er ósvarað eftir þó alla þessa umræðu, hvort þær rúmlega 20 breytingartillögur sem hafa verið lagðar fram séu að mati meiri hlutans (Forseti hringir.) ótækar og ótengdar eða hvort þær séu eðlilegt fylgiskjal með þeim tillögum sem meiri hlutinn leggur til.