140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að viðurkenna að maður er kannski aðeins annars hugar núna, flestir eru með hugann við það sem er að gerast suður í Keflavík, en við vonum auðvitað að allt fari vel.

Ég ætla að fara yfir nokkrar af þeim breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram. Ég hef þegar farið yfir eina og ætla að halda yfirferðinni áfram. Komið hefur fram gagnrýni á sumar af þessum tillögum og ég verð að segja að sú gagnrýni er ekki mjög málefnaleg, hún birtist á einhverri bloggsíðunni sem ég veit ekki hvort margir lesa. En í það minnsta eru þessar tillögur settar fram með gott eitt í huga.

Á þskj. 1355 er breytingartillaga frá þeim er hér stendur og hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni. Við veltum því upp hvort ekki sé rétt, fyrst þessi ferð er farin, að leita álits á nokkrum spurningum. Það er rétt að þessar spurningar eiga sér forsögu í þjóðfundinum og um ýmislegt fleira sem þar kom fram hefði mátt spyrja, en við veltum því upp hvort ekki sé rétt að spyrja um ákvæði er tryggi jafnan rétt til nýtingar allra auðlinda.

Nú er mikið í umræðunni um sjávarútvegsmálin að allir skuli njóta arðs af sjávarútvegsauðlindinni. Gjarnan er látið eins og þannig sé það ekki í dag en auðvitað njóta allir góðs af sjávarútvegsauðlindinni, en vissulega með mismunandi hætti. Við veltum því upp hvort ekki sé rétt að tala almennt um allar auðlindir, ég nefni til dæmis heita vatnið sem er ein af okkar verðmætustu auðlindum. Þeim gæðum er misskipt og við hljótum að velta því fyrir okkur hvort allir eigi ekki að eiga rétt á að nýta þá auðlind eins og aðrar. Sú nýting getur vitanlega ekki farið þannig fram að það sé hægt að leggja hitaveiturör héðan frá Reykjavík og vestur á firði, það mundi sjálfsagt ekki vera mjög sniðug aðferð, en hugsanlega mætti deila ágóðanum af þessari auðlind á höfuðborgarsvæðinu með þeim sem ekki njóta hennar, til dæmis með niðurgreiðslu á orkuverði eða einhverju slíku.

Þessi spurning er meðal annars sett fram vegna þess að í tillögum stjórnlagaráðs eru mjög margar greinar sem taka á jafnræði og rétti til hins og þessa. Þar liggja örugglega að baki ágætismeiningar og þau álitamál liggja vitanlega undir í þeirri skoðanakönnun sem á að fara fram. Ég ítreka það sem ég sagði fyrr í dag að ekki er verið að kjósa um stjórnarskrá, verið er að kanna hug fólks til ákveðinna breytinga. Ég velti því þá upp hvort ekki sé eðlilegt að spyrja þessarar spurningar og það má spyrja um ýmislegt annað fyrst verið er að fara af stað í þennan leiðangur. Hér erum við að tala um auðlindir og nýtingu á þeim, ég hefði alveg eins getað tekið dæmi af rafmagnsframleiðslu eða einhverju slíku úr fallvötnum, eða jarðhita ef sú krafa er uppi um jafnan aðgang eða að allir eigi auðlindirnar. Flestir eru sammála um að styrkja eigi í stjórnarskrá ákvæðið um að auðlindir landsins séu þjóðareign. Það þarf hins vegar að skýra aðeins betur hvað er þjóðareign. En hvað um það, hér er komin fram tillaga sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði er tryggi jafnan rétt til nýtingar allra auðlinda?“

Að mínu viti er varhugavert að taka eina auðlind út og segja að allir eigi að njóta hennar ef skilningur manna er sá að auðlindir almennt eigi að vera sameign. Þá hljótum við í fyrsta lagi að þurfa að skilgreina hvað er auðlind. Þingsályktunartillaga frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að farið verði í vinnu við að skilgreina það hefur lengi legið frammi og er í nefnd, að ég held.

En ég hef hér kynnt (Forseti hringir.) lauslega þessa tillögu sem við leggjum fram.