140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í henni gerði hann að umtalsefni þá breytingartillögu sem hann hefur lagt fram ásamt öðrum hv. þingmanni. Hann bendir réttilega á misskiptingu á auðlindum og hvort ekki eigi að tryggja jafnan aðgang að þeim gæðum. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér að þessi mál muni þróast á þann veg í framtíðinni að af nýtingu á auðlindum, hvort sem um er að ræða heita vatnið, sjávarútveginn eða ferðaþjónustuna eða þar sem sannarlega er verið að nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, verði greitt eðlilegt gjald til þjóðarinnar, sem miðast auðvitað á hverjum tíma við aðstæður í viðkomandi atvinnugrein.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér að hugsanlega yrði stofnaður auðlindasjóður sem virkaði á annan hátt en fyrirkomulagið er núna. Nú er verið að kynna skattlagningu á eina atvinnugrein og síðan á að færa þá fjármuni til annarrar greinar og ráðstafa þeim áður en búið er í raun að innheimta skattinn. Það er búið að gefa væntingar. Manni finnst eins og þetta virki þannig að verið sé að kaupa fylgi við að styðja ákveðna skattlagningu á eina atvinnugrein til að geta ráðstafað fjármununum í eitthvað annað, í ákveðin verkefni. Sér hv. þingmaður það fyrir sér í framtíðinni að í stað þess að gera þetta svona muni menn frekar stofna svokallaðan auðlindasjóð?

Síðan tek ég undir með hv. þingmanni að það er auðvitað eðlileg krafa að þau 10% þjóðarinnar, þeir þjóðfélagsþegnar sem þurfa að kynda með rafmagni og þurfa að borga kannski þrisvar til fjórum sinnum hærra verð en kostar að kynda með heitu vatni, fái sinn hlut í auðlindinni, á sama hátt og fólkið sem nýtur heita vatnsins í Reykjavík ætlar að fá tekjurnar af (Forseti hringir.) sjávarútvegsauðlindinni sem er í sjávarplássunum.