140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á milli 80 og 90% fyrirtækja í sjávarútvegi eru á því svæði sem við köllum landsbyggð en vitanlega eru einnig mjög stór útgerðarfyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Stærstur hluti þessa veiðigjalds, með þeim breytingum sem eiga að verða á því, er skattur á landsbyggðina með einhverjum hætti. Það er verið að færa enn þá fleiri krónur frá landsbyggðinni til höfuðborgar, ef þessi aðferð gengur eftir. Í nýframsettu fjárfestingaráætlunarplaggi sem var kynnt í dag sýnist mér að ætlunin sé að fullnýta þennan skatt af landsbyggðinni í önnur verkefni.

Ég held að í þessu hljóti að felast þau skilaboð til allra sem nýta auðlindir landsins með einhverjum hætti, að vilji stjórnarflokkanna sé að rukka eða láta greiða einhvers konar skatt af nýtingu á auðlindinni, hvort sem það er ferðaþjónusta, heita vatnið eða annað — væntanlega vindur í framtíðinni þegar vindmyllur verða komnar hér upp. Þær eru alls ekkert sérstaklega skemmtilegt fyrirbæri að mínu viti þó að þær séu eflaust umhverfisvænar og snjallar.

Það hefur enn þá ekki tekist að selja mér þá hugmynd að auðlindasjóður sé sniðugur. Ég sé ekki fyrir mér að slíkur sjóður sé heppilegur í íslensku samfélagi. Ég mundi að minnsta kosti vilja sjá fyrst hvernig honum yrði stjórnað og hvaða reglur ættu að gilda um hann.

Það er hins vegar ósköp eðlilegt að mínu viti ef verið er að rukka ákveðna atvinnugrein um extra mikið afgjald að mikill hluti af því afgjaldi renni til baka með einhverjum hætti í greinina til rannsókna, til þróunar, til fjárfestinga, nýsköpunar og alls þess sem allar atvinnugreinar þurfa á að halda.