140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að betra væri ef ferlið væri þannig að við værum nú að taka til efnislegrar umfjöllunar hverja þá tillögu sem stjórnlagaráð skilaði af sér og þær breytingartillögur sem fram hafa komið. Afrakstur þeirrar vinnu yrði væntanlega frumvarp til breytinga á stjórnarskrá og það fengi afgreiðslu í þinginu. Síðan yrði leitað til þjóðarinnar.

Ég er í það minnsta mótfallinn því að fara í einhverja tilraunastarfsemi, þ.e. að gera þessa skoðanakönnun. Ég óttast að sú ferð sem þar er lagt upp í muni mistakast á allan hátt vegna þess að það er ekki verið að bjóða fólki að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá. Það er verið að kanna hug þess til tillagna stjórnlagaráðs og til einstakra spurninga. En eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir benti réttilega á í dag í ræðu eru valkostirnir í raun bara þrír. Annaðhvort eru menn sammála öllum tillögum stjórnlagaráðs, þeir eru á móti öllum tillögum stjórnlagaráðs eða þeir gefa ekki upp afstöðu sína eða taka ekki afstöðu.

Ákveðnar tillögur stjórnlagaráðs hugsa ég að þingmenn mundu margir hverjir vilja samþykkja en aðrar tillögur mundu þingmenn alls ekki vilja samþykkja. Hvorki þingmönnum né þátttakendum í könnunni sem á að fara fram í október er boðið upp á að velja úr tillögunum. Það er annaðhvort eða. Og það held ég að sé ekki rétt vegna þess að tillögurnar eru einfaldlega ekki tilbúnar til að vera lagðar fram í slíkri könnun.