140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:14]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson út í nokkrar breytingartillögur sem hann hefur lagt fram ásamt hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni. Ég verð að viðurkenna að sumar þeirra skil ég ekki alveg en nú gefst tækifæri til að spyrja hv. þingmann. Á þskj. 1354 er spurning:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði kveðið á um jafnrétti til búsetu?“

Mig langar örlítið til að biðja hv. þingmann að útskýra nánar fyrir mér hvað þeir flutningsmenn eiga við þegar talað er um jafnrétti til búsetu. Hvað fylgir því? Ég átta mig ekki á hvað hv. þingmenn eiga við með jafnrétti til búsetu eins og þetta er fram sett og hvað er í þessari spurningu sem kannski er ekki orðað.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann um þskj. 1358 sem orðast svo, með leyfi frú forseta:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði sem kveður á um rétt allra landsmanna til jafnra samgangna?“

Nú eru samgöngur í lofti og á láði. Hvað erum við að tala um? Ef við tölum um flug, erum við þá að tala um að flugvöllum verði komið fyrir vítt og breitt um landið? Erum við að tala um að jafnar samgöngur séu jafnar samgöngur á sjó, landi og í lofti eða erum við að tala um jafnan aðgang að fé í samgönguáætlun?

Hvað eiga hv. þingmenn við með þessum tveimur tillögum sem þeir hafa lagt fram? Ég vildi gjarnan heyra skýringar hv. þingmanns á því.