140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir útskýringuna á jafnrétti til búsetu. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann í beinu framhaldi: Segjum sem svo að meðal annars jafnræði til búsetu og jafnrétti til búsetu verði að veruleika, hvernig horfir þá hv. þingmaður til þess sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður að úthlutað verði úr jöfnunarsjóði vegna ákveðinna þátta? Meðal annars er horft til fjölda í sveitarfélagi, búsetu, fasteignagjalda og annars í þeim dúr. Hvernig sér hann þann sjóð vinna ef þetta verður að veruleika?

Þegar hv. þingmaður og samflutningsmaður hans að breytingartillögu ræða um jafna dreifingu útgjalda ríkisins milli landshluta, er hann þá að horfa til þess að það séu þessi jöfnu útgjöld eða þessi jafna dreifing og að í útgjöldum ríkisins verði einfaldlega hver þegn samfélagsins með ákveðna krónutölu sem síðan dreifist um landið eftir því hversu margir búa á hverjum stað? Eiga þeir að njóta þess úr ríkissjóði? Er það það sem hv. flutningsmenn hafa í huga þegar þeir tala um jafna dreifingu útgjalda ríkisins á milli landshluta?