140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans þar sem hann velti því upp hver staða forsetans væri varðandi þessar tillögur frá stjórnlagaráði og hvernig framtíðarskipan forsetaembættisins væri og verður ef þessi þingsályktunartillaga nær fram að ganga. Málið er hins vegar að það á ekki að fara að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu, í þessum köflum um forsetann. Það er búið að taka málið núna úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það hefur verið í nefndinni í allan vetur án árangurs og raunverulega án nokkurrar vinnu. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tók á móti sérfræðingum og álitsgjöfum til að fá álit þeirra á skýrslunni frá stjórnlagaráði. Þess vegna er svo skrýtið að búið sé að taka málið aftur út úr þinginu og fela sex til sjö manna lögmannahópi yfirlestur þeirra tillagna og tillagna sem stjórnlagaráð gerði varðandi greinargerðina, sem nú er komið í ljós að passar á engan hátt við frumvarpið sjálft sem stjórnlagaþing skilaði.

Ég var gagnrýnd mjög mikið fyrir það að hafa gagnrýnt það á sínum tíma en svo hefur hið sanna komið í ljós vegna þess að það er viðurkennt núna að greinargerðin passar ekki fullkomlega við þessi frumvarpsdrög.

Þess vegna langar mig til að spyrja þingmanninn: Finnst honum ekki einkennilegt að vera að fara af stað með þjóðaratkvæðagreiðslu, raunverulega um stefnumál ríkisstjórnarflokkanna í stað þess að stoppa þessa vinnu, leyfa sérfræðinefndinni að klára vinnu sína fyrir septemberlok og skila niðurstöðum inn í þingið og við þingmenn mundum svo vinna áfram með tillögurnar í stað þess að fara með þessa þjóðaratkvæðagreiðslu af stað sem er raunverulega úrelt nú þegar út af vinnu sérfræðinganefndarinnar.