140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að hæla forseta fyrir að vera mjög athugul í störfum sínum, ég þakka forseta fyrir það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í eina af þeim spurningum sem lagðar eru til í því plaggi sem er til grundvallar þessari umræðu og það er spurningin um jafnt atkvæðavægi. Í umræðunni hefur komið fram að ákveðnar skýringar eru á því að atkvæðavægi er ekki jafnt milli allra landsmanna. Ég hef að sjálfsögðu ákveðinn skilning á því að sumum þyki það súrt í broti og ekki sé verið að gæta jafnræðis milli allra þegnanna.

Gæðum er samt ekki skipt jafnara á öðrum sviðum og á ég þá við að á höfuðborgarsvæðinu er stjórnsýslan, ráðuneytin, Hæstiréttur, helstu rannsóknarstofnanir og annað sem þjóðin á. Þar af leiðandi hefur mörgum okkar þótt mjög eðlilegt að það sé skekkja þegar kemur að atkvæðavæginu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverjar skýringar á því að spurt sé um þetta sérstaklega. Við vitum að margir hafa áhuga á að jafna stöðu þegnanna með ýmsum hætti, til dæmis að geta búið við mannsæmandi aðstæður, svo ég orði það þannig. Það er svo sem kveðið á um það í tillögum stjórnlagaráðs að jafnræði eigi að vera með búsetu og þess háttar. Ef þetta á að ná fram að ganga, að jafna atkvæðisréttinn, þarf eitthvað fleira að fylgja með.