140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi réttilega heilbrigðisþjónustuna sem er ein af þeim grundvallarforsendum, ég orða það þannig, þegar fólk velur sér búsetu. Það eru ákveðnir þættir sem skipta mestu máli, þ.e. atvinna, heilbrigðisþjónusta, skólamál, það eru ákveðnir þættir sem skipta meira máli en aðrir þegar fólk velur sér búsetu. Þetta eru grunnþarfir í hverju samfélagi, grunnþjónusta.

Staðan er þannig í dag að þeim gæðum er mjög misskipt milli landsmanna, það er einfaldlega þannig, og þá er ég ekki að tala um, eins og hv. þingmaður benti á, endilega stærstu og flottustu sjúkrahúsin eða stærstu og bestu skólana eða fjölbreyttustu atvinnutækifærin sem völ er á. Við þekkjum það að sá sem missir vinnu sína norður á Sauðárkróki hefur ekki sama tækifæri til að finna sér starf við hæfi og einhver á höfuðborgarsvæðinu. Það er bara þannig. Sá sem er sérmenntaður í einhverju fagi hefur færri tækifæri úti á landi en annars staðar. Það er svo margt hægt að telja upp þar sem ójafnt er gefið í þessu blessaða landi okkar. Það er í rauninni kannski galið að ætla sér að hægt sé að jafna þetta allt til fulls, kannski ekki það sem við erum akkúrat að tala um núna, heldur að reyna að vekja athygli á því að þegar talað er um ein gæði, sem er klárlega þessi atkvæðisréttur sem hver maður á að hafa, þá er ýmislegt annað sem fylgir með.

Í 23. gr. í tillögum stjórnlagaráðs er sagt, með leyfi forseta: „Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.“

Ég spyr: Hvað þýðir þetta? Eigum við einhvers konar gátlista um hæsta mark?