140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:56]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Mig langaði að ræða eitt við hv. þingmann sem ég spurði félaga hennar um fyrr í dag, hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Ég velti upp einni breytingartillögu sem er flutt af 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, um að bæta við spurningu um hvort þjóðin vilji heimila frekara fullveldisafsal í stjórnarskrá.

Um þetta hafa verið skiptar skoðanir. Þetta hefur komist aðeins til tals í tengslum við EES-samninginn og þá staðreynd að margir segja að með EES-samningnum sé of mikið fullveldisafsal sem ekki sé heimilt í stjórnarskrá. Sumir vilja meina að skynsamlegt sé að setja heimild í stjórnarskrána til að veita slíkt fullveldisafsal. Aðrir eru hins vegar á þeirri skoðun að þarna eigi ekki að auka fullveldisafsalið frekar, heldur leita leiða til draga úr því og hugsanlega eiga frumkvæði að því að leita til Norðmanna og Liechtensteina um að endurskoða með einhverjum hætti EES-samninginn eða athuga hvort einhver möguleiki sé á því.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að það er breytingartillaga um þetta frá félögum hennar, hver sé hennar persónulega afstaða til þessa máls. Telur hv. þingmaður heppilegast í þessu efni að heimila slíkt fullveldisafsal í stjórnarskrá eða eigum við að láta stjórnarskrána standa eins og hún er og jafnvel styrkja enn frekar fullveldið í stjórnarskránni? Það væri fróðlegt að fá afstöðu hv. þingmanns til þessa.