140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar stórt er spurt er oftast fátt um svör. Hér hefur það verið rætt að það að vera með EES-samninginn sýni að við séum að framselja ákveðið vald til alþjóðlegra stofnana. Við þurfum að spyrja okkur hvort svo sé, fara í gegnum þann þátt sem snýr að EES-samningnum og svara þá þeirri spurningu.

Ég verð að játa, hv. þingmaður, að ég hef ekki velt þessari spurningu sérstaklega fyrir mér. Ég hefði kosið að fá fleiri til að ræða málið og hlusta á athugasemdir annarra aðila mér fróðari um þetta mál áður en ég svara hvort ég mundi segja já eða nei við slíkri breytingartillögu. Ég hallast að því að ég mundi frekar segja nei við henni út frá því sem ég veit í augnablikinu. En ég óska líka eftir að fá að skipta um skoðun fái ég frekari kynningu á því að slíkt sé nauðsynlegt. Það má, eins og hv. þingmaður nefndi, ræða það við aðrar þjóðir sem eru innan EES-samningsins en ekki aðilar að Evrópusambandinu með hvaða hætti þeir sjái að hægt sé að fullgilda EES-tilskipanir og -gerðir án þess að menn þurfi að breyta þessum þætti í stjórnarskrá.

Að svo komnu máli get ég eiginlega ekki svarað hv. þingmanni öðruvísi.