140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar við spurningu minni.

(Forseti (ÁI): Forseti vekur athygli á að hv. þingmaður er í andsvari. Hv. ræðumaður Ragnheiður Ríkharðsdóttir er til andsvara.)

Ef frú forseti sem sagt að segja að ég verði ritskoðuð eða hvað er verið að fara?

(Forseti (ÁI): Forseti var bara að vekja athygli á að hv. þingmaður er sjálfur í andsvari við ræðumann.)

Ég gagnrýndi mikið þegar málið kom fyrst fram að alþingismenn þyrftu að leggja fram þingsályktunartillögu í þinginu til að spyrja þjóðina að því hvort það mætti leggja fram frumvarp. Þá var þessu breytt og ekkert af upphaflegu tillögunni stendur eftir því að ríkisstjórnarmeirihlutinn er kominn með svo margar breytingartillögur að sinni eigin þingsályktunartillögu.

Það sem ég vil benda á er að 1. spurning, að þjóðin sé spurð að því hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að vera grunnurinn að nýrri stjórnarskrá, er óþörf vegna þess að hér hefur verið haldinn þjóðfundur, stjórnlagaráði komið á fót og búið er að skila inn skýrslu til Alþingis. En nú á að taka hana úr höndum Alþingis þótt þingmenn einir geti breytt stjórnarskránni.

Ég hef kallað þetta tafaleik. Það er einstaklega skrýtið að koma fram með þetta núna þar sem búið er að fela lögfræðingateymi að lesa saman greinargerðina og frumvarpsdrögin til að samhæfa þau öðrum lögum, mannréttindasáttmálum og öðru. Teymið á að skila af sér til þingsins fyrir 1. september á þessu ári. En verði þetta samþykkt er að mínu mati verið að fara með úreltar tillögur í þjóðaratkvæðagreiðslu því að þjóðaratkvæðagreiðslan á ekki að fara fram fyrr en í lok október.