140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mér sýndist rétt áðan hv. þm. Þór Saari vera viðstaddur. Ég hef óskað eftir því að hv. þingmenn Hreyfingarinnar taki þátt í umræðunni og útskýri fyrir okkur hvað er svona mikilvægt við það að senda þessi drög að stjórnarskrá til þjóðarinnar. En hann er sem sagt ekki viðstaddur.

Ég hef fengið nokkuð af fjölpósti og í sjálfu sér gleðst ég yfir því þegar kjósendur senda mér bréf. Þessi er reyndar nánast alltaf eins. Ég ætla að fara í gegnum einn slíkan en þar stendur, með leyfi forseta:

„Nú stefnir enn einu sinni í að þingið neiti þjóðinni um að segja hug sinn um nýja stjórnarskrá, að þessu sinni með fundartæknilegum aðferðum.“

Í fyrsta lagi erum við ekkert að ræða um nýja stjórnarskrá. Það verður ekkert kosið um nýja stjórnarskrá heldur verður kosið um það hvort þau drög að stjórnarskrá sem stjórnlagaráð kom að eigi að vera grundvöllur að nýrri stjórnarskrá sem Alþingi setur að sjálfsögðu. Alþingi er stjórnarskrárgjafi á Íslandi, hefur verið það lengi og verður það áfram að miklu leyti nema menn samþykki þá breytingartillögu sem ég hef lagt fram um að þjóðin greiði bindandi atkvæði um stjórnarskrána.

Stjórnarskránni, sem send verður til atkvæða í sumar, verður breytt. Það liggur fyrir. Það er eiginlega ekkert að marka þessa atkvæðagreiðslu um stjórnarskrána þar sem hún er alls ekki um nýja stjórnarskrá heldur drög. Síðan þegar kosningunni er lokið fær Alþingi málið og um leið og það samþykkir einhverja breytingu á stjórnarskránni þarf að rjúfa þing og þá verða almennar þingkosningar. Þetta er ferlið samkvæmt núgildandi stjórnarskrá. Ég legg áherslu á að menn vandi sig við það að fara að stjórnarskrá hvort sem hún er sú sem við höfum í dag eða breytt. Það hefur lítið gildi að hafa stjórnarskrá ef menn fara ekki eftir henni.

Í fjölpóstinum segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Þú átt að berjast fyrir mínum hag og réttindum en ekki skýla þér á bak við formsatriði.“

Ég tel mig ekki skýla mér á bak við formsatriði. Ég er að ræða hér einstök atriði í þessu mikla máli. Ég ber það mikla virðingu fyrir stjórnarskránni að ég vil ekki henda henni óræddri í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að hún verði ekkert efnislega rædd meðal þingmanna og þjóðin taki síðan afstöðu til einhverrar stjórnarskrár.

Það eru nokkrar breytingartillögur sem ég vildi gjarnan ræða en tíminn er stuttur. Ég ræddi áðan um forsetann og vildi gjarnan taka smárispu um hann vegna þess að hann tjáði sig við þingsetningu eins og völd hans mundu aukast mikið við þessa breytingu.

Ég ætla að fara í gegnum breytingartillögu frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem ég undirstrikaði í umsögn sem ég gaf um málið til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hann vill spyrja, með leyfi forseta:

„Er mikilvægt að ákvæði stjórnarskrár Íslands séu auðskiljanleg?“ — Já eða nei.

Þetta held ég að sé meginatriðið. Stjórnarskráin er fyrir fólkið og það á ekki að þurfa lögfræðispekinga og prófessora til að túlka fyrir fólki hvað stjórnarskráin þýðir.

Síðan er spurningin um það hvort ákvæði í stjórnarskránni eigi að heimila forseta Íslands að synja lagafrumvarpi staðfestingar og vísa þeim þannig í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar er aftur já eða nei. Þetta vildi ég ræða í þessari ræðu minni en hún er bara allt of stutt. Ég ætlaði að ræða samskipti almennings og Alþingis í sambandi við þær hugmyndir sem stjórnlagaráð lagði til en því miður kemst ég ekki lengra, frú forseti, í bili.

Ég vil benda á að það vantar ákvæði um að við séum öll frjáls í tillögur stjórnlagaráðs, það vantar ákvæði um að ekki megi hneppa menn í þrældóm. Það er ekkert bann við mansali í þessari hugmynd að stjórnarskrá. Hins vegar er eitthvert skrúðmælgi: „Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn“ — sem ég veit ekki almennilega hvað þýðir og væri gaman að heyra t.d. Þór Saari lýsa fyrir mér hvað þýðir að lifa með reisn.