140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef margbent á að það er veila í því að biðja fólk um að samþykkja eitthvað sem á eftir að taka breytingum. Það er hreinlega rökvilla því að hvað gerist ef menn samþykkja eitthvað og Alþingi breytir því svo? Hvað heldur fólk þá? Fólk hefur sent mér fjöldann allan af skeytum í dag. Hvað segir það ef það samþykkir eitthvað og telur sig kannski vera að samþykkja drög að stjórnarskrá en svo kemur bara eitthvað allt annað út úr því? Það er mikill galli.

Varðandi það hvort við eigum að ræða ferlið eða líka efnislega nýja stjórnarskrá, finnst mér alveg fráleitt að senda eitthvað í kosningu sem ekki hefur verið rætt efnislega, það er algjörlega fráleitt. Mér finnst það skylda hvers og eins þingmanns að fara í gegnum hvert einasta atriði í stjórnarskránni og láta í ljósi afstöðu sína, jákvæða eða neikvæða, þannig að kjósendur hafi eitthvað efnislegt til að taka á. Mér finnst annað alveg fráleitt þannig að ég skirrist ekkert við að ræða efnislega þær hugmyndir sem stjórnlagaráð kom með til Alþingis.

Hv. þingmaður sagði að hlutverk stjórnarskrár væri að verja fólk fyrir ofríki ríkisins. Það er ekki rétt. Í mínum huga er hlutverk stjórnarskrár númer eitt, tvö og þrjú að verja fólk fyrir öðru fólki. Þess vegna er bannað að drepa, bannað að myrða. Í öðru lagi er hlutverk stjórnarskrár að búa til kröfur fólks á annað fólk, eins og kröfur barna á foreldra sína, kröfur aldraðra og öryrkja á þjóðfélagið. Svo stofna menn ríki að mínu mati til að framfylgja þessum mannréttindahugsunum og svo setjum við ákvæði í stjórnarskrána til að verja borgarana fyrir ofríki ríkisins.