140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, okkur greinir á um hvert hlutverk stjórnarskrárinnar er raunverulega. Ég bendi á dómaframkvæmd mannréttindakaflans í stjórnarskránni. Þau dómsmál hafa öll lotið að því að ríkið braut á einhvern hátt á einstaklingum og fólk hefur sótt rétt sinn til ríkisins. En látum það liggja á milli hluta.

Mig langar til þess að lesa upp úr minnisblaði sem Björg Thorarensen lagaprófessor skrifaði til okkar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 26. mars. 2012.

Hluti þess hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Nú er til umfjöllunar tillaga um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort tillaga stjórnlagaráðs skuli lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga. Slík atkvæðagreiðsla sem hefur það markmið að leita leiðsagnar frá kjósendum getur ekki komið í staðinn fyrir að þjóðin taki beina afstöðu til nýrrar stjórnarskrár með bindandi niðurstöðu, með öðrum orðum samþykki hana eða hafni henni, eftir að Alþingi hefur samþykkt hana í endanlegri mynd.“

Þarna kristallast í þessum fáu orðum það sem við stöndum frammi fyrir. Það er það að þessi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla er raunverulega algjörlega tilgangslaus því að stjórnvöld eru ekki bundin af því sem kemur út úr þessari þjóðaratkvæðagreiðslu, hún er ekki bindandi og er ekki með ákvæði stjórnarskrár eins og lagt er upp með varðandi þetta mál.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Er ekki of mikið í lagt að eyða 250–300 milljónum af skattfé í að fara af stað með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um sex spurningar sem ríkisstjórnin hefur handvalið og snúa raunverulega ekkert að stjórnarskrá Íslands og þeim póstum sem þingmaðurinn fór yfir þegar almenningur telur að við séum hér að ræða breytingar á stjórnarskrá? Svo er ekki.