140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég átti eftir svara einni spurningu hv. þingmanns um dýraréttindi. Eins og ég gat um áðan tel ég að hlutverk stjórnarskrárinnar sé að gæta réttinda eins borgara gagnvart öðrum borgurum í fyrsta lagi, í öðru lagi að veita honum réttindi gagnvart öðrum borgurum og í þriðja lagi að verja hann fyrir ofríki ríkisins.

Mér finnst alveg nóg að við pössum þetta. Það er að mínu mati fásinna að vera að þynna þetta út með því að taka ákvæði um dýr þarna inn. Það er verið að þynna út stjórnarskrána. Hvað þýða réttindi dýra? Hvað gerist með geitunginn sem ræðst á mig? Má ég drepa hann? (TÞH: Nei, það er stjórnarskrárbrot.) (Gripið fram í: Nei.) Mér finnst menn vera að gefa höggstað á sér.

Mig langar til að ræða annað varðandi framkvæmdina. Það er að mínu mati allt að því skemmdarverk á því góða starfi sem stjórnlagaráð vann að senda þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru margar góðar hugmyndir þarna inni þó að ýmsar séu ekki góðar og við þurfum virkilega að fara í gegnum sumar eins og þetta með dýrin og margt, margt fleira. Mér finnst það vera skemmdarverk vegna þess að þegar búið er að senda tillögurnar í þjóðaratkvæðagreiðslu heldur þjóðin að hún hafi eitthvað um þetta að segja, hver einasti kjósandi, en í reynd er þetta bara skoðanakönnun. Það er miklu betra að hafa skoðanakönnun því að það væri ekkert bindandi. Þá gæti maður sagt: Þetta var jú bara skoðanakönnun, þegar menn eru spurðir um þetta og hitt. Það væri hægt að spyrja miklu nákvæmar og það væri að öllu leyti miklu ódýrara að gera það þannig. Það er hægt að fá miklu meiri upplýsingar á miklu ódýrari hátt en hér er lagt til. Þetta er allt að því skemmdarverk á því starfi sem stjórnlagaráð vann og það er á ábyrgð þeirra sem vilja að keyra þetta í gegn jafnvel þannig að þeir eru tilbúnir að styðja góða eða slæma ríkisstjórn í staðinn.