140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:28]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ræddi í ræðu minni áðan um aðferðafræðina sem notuð hefur verið til að koma á þessum stjórnarskrárdrögum og það sem hefur leitt til þeirrar stöðu sem við erum í núna.

Nú langar mig til að beina sjónum efnislega að því sem er í þeim drögum sem stjórnlagaráð skilaði af sér til Alþingis og útskýra aðeins hverju ég er á móti í þeim stjórnarskrárdrögum efnislega. Til þess þarf ég að útskýra aðeins tilurð réttinda í stjórnarskrám yfirleitt. Við getum sagt að þróun grunnréttinda í hinum siðuðu þjóðfélögum hafi verið það sem við getum kallað fyrstu kynslóð réttinda, þ.e. réttur einstaklingsins á vernd fyrir utanaðkomandi kúgun, frelsi til orðs og athafna, kosningafrelsi, réttur til óvilhallrar meðferðar fyrir dómstólum. Þetta eru allt réttindi sem hægt er að kalla fyrstu kynslóð réttinda og komu inn í stjórnarskrár eftir að viðhorfsbreyting varð í kjölfar upplýsingastefnunnar á 18. öld þegar kenningar um frelsi, jafnrétti og bræðralag festu rætur. Þessar hugmyndir komu svo til framkvæmda í frönsku byltingunni og með stjórnarskrá Bandaríkjanna. Eftir það hefur lýðræði sem þjóðskipulag breiðst út um heiminn og stjórnarskrár flestra eða allra ríkja getum við sagt innihalda tryggingu borgaranna fyrir þeim þáttum sem ég taldi upp áðan.

Eftir fyrri heimsstyrjöldina fór að bera á hugmyndum sem kalla mætti aðra kynslóð réttinda. Þær fjalla um hluti eins og rétt einstaklingsins til að búa við mannsæmandi kjör, rétt til atvinnu, menntunar, heilsugæslu, að lifa með reisn, rétt til húsnæðis og þess háttar.

Eins og heyra má af þessu leiða annarrar kynslóðar réttindi oftar en ekki til þess að hlutverk ríkisins er útvíkkað og vald þess yfir einstaklingnum er aukið. Við getum einfaldlega hugsað okkur að ef það eru stjórnarskrárbundin réttindi að hafa rétt til atvinnu, menntunar, heilsugæslu og annars slíks þarf ríkið að hafa vald yfir einstaklingunum til að geta fjármagnað þetta. Það er skattlagningarvald og vald til að gera það sem þarf til að uppfylla þau skilyrði sem við getum kallað annarrar kynslóðar réttindi. Það er ljóst að þetta vald skerðir fyrstu kynslóðar réttindi einstaklinga. Það kostar mikið að tryggja öllum menntun, heilsugæslu, rétt til atvinnu, rétt til að lifa með reisn, rétt til húsnæðis og annað slíkt. Til þess þarf að innheimta skatta og margir hafa bent á að þetta geti skert eignarréttindi fólks.

Ég er ekki lágmarksríkismaður og ég er á því að vissa hluti af annarrar kynslóðar réttindum beri að hafa í stjórnarskrá. Það eru hlutir eins og réttur til lágmarksmenntunar, til heilsugæslu, en ég get ómögulega skilið hugtök eins og réttinn til að lifa með reisn. Hvað er það? Það er alls ekkert skilgreint. Það er mjög mismunandi í hugum fólks hvað er að lifa með reisn. Einnig get ég ekki fallist á að það eigi að vera stjórnarskrárbundin réttindi að maður hafi húsnæði eða atvinnu. Hugsum okkur til dæmis að ég sé óalandi og óferjandi, rekist ekki í vinnu af einhverjum orsökum og fái þar af leiðandi hvergi vinnu. Það er ljóst að það eru stjórnarskrárbundin réttindi mín að hafa vinnu og þar af leiðandi er ríkið sem framfylgir þessu að brjóta á mér stjórnarskrárbundin réttindi og ég ætti þá að geta farið í mál við ríkið. Þjóðverjar hafa rekið sig á að það að vera of gjöfull á annarrar kynslóðar réttindi í stjórnarskrá getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér eins og nýleg mál fyrir þýska stjórnlagadómstólnum sýna.

Síðan er hægt að teygja þetta enn lengra of þá tölum við um þriðju kynslóðar réttindi. Það er til dæmis rétturinn til að njóta friðar frá stríðsátökum, réttur til náttúruverndar og nýtingar, réttur til ómengaðrar náttúru og réttur dýra. Þarna erum við komin mjög langt frá upphaflegu hugmyndunum um réttindi sem komu fram með upplýsingunni á 18. öldinni. Þarna erum við komin að vissum ómöguleika. Hugsum okkur til dæmis réttinn til að njóta friðar frá stríðsátökum. Hugsum okkur bara seinni heimsstyrjöldina, ef eitthvað slíkt mundi brjótast út aftur. Það er ljóst að Íslendingar nutu ekki friðar frá stríðsátökum, bæði voru gerðar árásir á Ísland og árásir á Íslendinga á íslenskum skipum og annað slíkt, og þjóðfélagið umturnaðist allt vegna stríðsátakanna. Gæti ég þá sem þegn í landi þar sem það er stjórnarskrárbundið að ég eigi að njóta friðar frá stríðsátökum farið til dómstóla og haldið því fram að verið væri að fremja stjórnarskrárbrot á mér? Samkvæmt orðanna hljóðan er það þannig.

Það sem ég er að reyna að varpa ljósi á er að með því að búa til svona óskalista eins og drögin að stjórnarskránni eru núna þá er verið að búa til vissan ómöguleika í að framfylgja stjórnarskránni og það er verið þynna hana þannig út að hún verði marklaust plagg.

Með því er ég ekki að segja að ég sé alfarið á móti því að setja inn eitthvað af annarrar kynslóðar réttindum, eins og rétt til menntunar, einhverrar lágmarksmenntunar, og rétt til heilsugæslu. En þau drög sem við höfum núna ganga allt of langt. Þau koma inn á þriðju kynslóðar réttindi, eins og til dæmis rétt dýra sem mér er gjörsamlega ómögulegt að skilja. Eiga dýrin að geta haldið því fram að verið sé að brjóta á þeim stjórnarskrárvarinn rétt? Eða hver á að gæta hagsmuna þeirra? Umboðsmaður dýra gæti kannski komið fram og séð um það. Hvað veit ég? Og síðan önnur réttindi sem eru í drögunum.

Kannski er hægt að líta á þetta sem almenna stefnuyfirlýsingu með afar takmarkað lagalegt ef nokkurt lagalegt gildi. Við breytum þá stjórnarskránni raunverulega úr því að vera grunnlög fyrir landið í það að vera einhvers konar stefnuyfirlýsing fyrir það sem við viljum fyrir Ísland og Íslendinga. Það er kannski sú leið sem menn vilja fara með stjórnarskrána, að gera hana að stefnuyfirlýsingu og hún hætti að þjóna sem þau grunnlög sem við viljum að stjórnarskrá sé, a.m.k. sem ég vil að stjórnarskrá sé.

Þetta eru í mjög stuttu máli heimspekileg rök mín fyrir því að vera á móti þeim drögum sem eru hér til umfjöllunar.