140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór hér yfir nokkrar af tillögum stjórnlagaráðs, hann fór yfir orðalag og var með ýmsar vangaveltur. Nú hafa ýmsar breytingartillögur komið fram við þær spurningar sem leggja á fyrir þjóðina í október og margar þessara breytingartillagna eiga rætur að rekja í tillögur stjórnlagaráðs.

Það sem vekur samt eftirtekt og smitar að nokkru leyti inn í breytingartillögur er óskýrleiki ef ég má orða það þannig, það þarf að útskýra vel hvað felst í spurningunum og um leið hvað felst í tillögunum.

Í 17. gr. í tillögum stjórnlagaráðs er talað um að tryggja beri frelsi vísinda, fræða og lista. Þetta skuli tryggja með lögum. Engin leiðbeining er gefin önnur en sú að setja skuli í lög frelsi til að stunda þessar greinar.

Sama má segja um þá grein sem mér heyrðist hv. þingmaður nefna áðan um dýravernd þar sem segir að með lögum skuli kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda í útrýmingarhættu. Ég geri ekki lítið úr þessu, hugmyndin og hugsunin á bak við þetta er mjög góð og mjög falleg. Ég velti fyrir mér framkvæmdinni á þessu. Hvernig eigum við að tryggja með lögum frelsi vísinda, fræða og lista? Hvernig lítur slíkt lagafrumvarp út og á hverju á það að taka? Stjórnlagaráð virðist leggja löggjafanum býsna mikið verkefni í hendur með mörgum af þeim tillögum sem það (Forseti hringir.) leggur til.