140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:41]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt athugað hjá hv. þingmanni. En ef maður hugsar aðeins um hvað er verið að segja með því að tryggja frelsi vísinda, fræða og lista, hvað raunverulega er verið að segja þarna, þá er verið að segja hinn einfalda hlut að fólk hafi málfrelsi og að fólk eigi alla jafna að geta gert það sem það vill án takmarkana í lögum, hegningarlögum og öðrum slíkum lögum.

Mér finnst það að taka eitthvað sérstaklega fram um vísindi, fræði og listir endurspegla kannski miklu frekar það að þeir sem voru í stjórnlagaráði sjá kannski — hvernig get ég orðað það án þess að móðga neinn? — yfir mikilvægi þeirra vegna þess að flestir þeirra koma úr lista-, fræða- og vísindasamfélaginu. Hugsanlega er það það vegna þess að hið einfalda er að það á að tryggja öllum málfrelsi og skoðanafrelsi og það nær yfir það að tryggja skuli frelsi vísinda, fræða og lista. Kannski endurspeglar þetta miklu fremur samsetningu ráðsins en nokkurn tímann eitthvert praktískt gildi.