140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega það sem ég talaði um í ræðu minni áðan að í þessum drögum eru hlutir sem hljóma vel og allir eru sammála. Til dæmis eru allir sammála um að allir eigi rétt til lífs. Það eru allir sammála um að það eigi að fara vel með dýrin og annað slíkt. Þetta hefur ekkert með grunnlögin að gera í mínum huga. Þetta er bara falleg stefnuyfirlýsing en ef maður tekur þann pól í hæðina að stjórnarskrá eigi að vera grunnlög í landinu og standa vörð um réttindi okkar og, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði, veita okkur vernd frá ríkinu — ég er henni algerlega sammála um að þetta er vernd borgaranna frá ofríki stjórnmálamanna og embættismanna — þá skil ég ekki hvaða hlutverki þessi fallegu markmið og fallegu sjónarmið eiga að gegna í grunnlögunum.

Hins vegar væri hægt að líta á stjórnarskrá sem fallega stefnuyfirlýsingu fyrir land eða þjóð eins og okkur Íslendinga en þá aftur á móti missir hún hlutverk sitt sem er það að vernda einstaklinginn fyrir ofríki stjórnmálamanna, embættismanna og öðru slíku. Þá erum við komin inn á það að vera með grunnlög eða sem ættu að vera grunnlög sem veita borgurunum enga vernd, heldur er bara falleg stefnuyfirlýsing sem þjónar ekki þeim tilgangi sem stjórnarskrá á í mínum huga að þjóna.