140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðu hans. Við erum nokkuð samhljóða í skoðun okkar á þessu eins og kom fram varðandi skilning okkar á að stjórnarskrá eigi að verja rétt borgaranna gegn framkvæmdarvaldinu og stjórnvöldum í því ríki sem stjórnarskráin gildir.

Ég tek líka undir það að tillagan sem liggur fyrir frá stjórnlagaráði er frekar stefnuyfirlýsing en grunnlög, sérstaklega í ljósi þess að í þeirri skýrslu sem stjórnlagaráð hefur skilað inn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er mikið valdaframsal. Mig minnir að það sé á 70–80 stöðum vísað í nánari ákvæði í almennum lögum. (PHB: 86.) Það er verið að úthýsa — 86 segir hv. þm. Pétur Blöndal. Á 86 stöðum er raunverulega verið að vísa stjórnskipunarvaldinu í almenna löggjöf, þá er stjórnskipunarvaldið farið úr höndum Alþingis. Þetta gagnrýni ég sérstaklega í ljósi þess að við höfum orðið vitni að því undanfarið að í almennum lögum sem við höfum fjallað um í þinginu er komið reglugerðarákvæðafargan sem er enn meira valdaframsal.

Mér finnst vera villa í hugsuninni hjá stjórnlagaráði varðandi það atriði að taka valdaframsalið út úr grunnlögunum og setja í almenna löggjöf því að stjórnskipunarvaldið er hjá tveimur þingum með kosningum á milli. Ef til dæmis hefði verið kosið um stjórnarskrána í síðustu kosningum hefðu um það bil 90 þingmenn komið að því að breyta stjórnarskránni því að í kosningum koma náttúrlega nýir þingmenn inn og aðrir fara út þannig að stjórnskipunarvaldið er langtum víðtækara (Forseti hringir.) en löggjafinn. (Gripið fram í.)