140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:49]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þingmaður sagði. Settur er einhver rammi í stjórnarskrá og síðan þarf Alþingi að setja lög út frá því. Ég fellst algjörlega á að það er takmarkandi.

Eins og ég sagði áðan held ég að þessi drög sem grunnlög fyrir okkur Íslendinga, sem stjórnarskráin á að vera að mínu viti, séu að missa gildi sitt sem slíkt plagg. Þetta er miklu frekar stefnuyfirlýsing en nokkuð annað. Það getur vel verið að menn hafi mismunandi sjónarmið í þessum efnum en ég hef aldrei í öllum þeim umræðum sem hafa verið um stjórnarskrána heyrt talað um að breyta eigi eðli stjórnarskrárinnar úr því að vera grunnlög yfir í það að vera stefnuplagg með fögrum orðum og fyrirheitum sem hafa ekkert lagalegt gildi fyrir dómstólum. Af hverri greininni á fætur annarri stafa engar lagalegar afleiðingar. Það held ég að sé mjög slæmt og þynni út þær greinar sem þó hafa (Forseti hringir.) lagalegar afleiðingar.