140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi varðandi lögfræðingahópinn þá sakna ég þess svolítið að ekki skuli hafa komið skýrar fram í þessari umræðu hvert verksvið þeirra verði, hvert umboð þeirra verði, hvaða tími þeim er ætlaður til starfa o.s.frv. Á dögunum var upplýst að verið væri að semja við þá um þessa hluti og ég sakna þess að ekki sé komin skýrari mynd af því. Það setur okkur auðvitað nokkur mörk í þessari umræðu vegna þess að það skiptir töluvert miklu hvert umboð þeirra er, hver verklýsingin er og um hvað verið er að biðja þá. Við vitum heldur ekki, eins og fram kom í umræðum í fyrradag, hvaða vinnulag verður á störfum þeirra, hvort þeir eiga að starfa sem nefnd eða hópur eða hvort þeir eiga sem einstaklingar að vinna að ákveðnum tilteknum köflum eða greinum. Þetta er allt saman mjög óljóst.

En ég tek undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að það er gott og tímabært, og hefði átt að gerast fyrir löngu, að fá flinka lögfræðinga til að taka þetta til yfirlestrar. Það var reyndar, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir man, í sjálfu sér vilji til þess í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir áramót að fá Lagastofnun Háskóla Íslands til að taka að sér svona vinnu en þegar Lagastofnun taldi sig í í fyrsta lagi þurfa rúman tíma til að vinna það verk vel, þó nokkurt fjármagn og ekki síst nokkurt sjálfræði eða sjálfstæði um það hvernig hún hagaði þeirri vinnu, reyndist ekki vera fyrir hendi samkomulagsgrundvöllur við meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Ég verð að koma nánar inn á þessar einstöku greinar í síðara svari mínu.