140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var fínt að þingmaðurinn minntist á að Lagastofnun Háskólans ætlaði að taka þetta verkefni að sér og taldi sig þurfa allt að ár til að lesa þetta saman og lagfæra. Því var hreinlega hafnað af meiri hlutanum á þingi þar sem talið var að það tæki allt of langan tíma. Ég vil minna á að nú eru níu mánuðir síðan Lagastofnun Háskólans bauð þetta og málinu hefur ekkert fleygt fram í þinginu. Það voru því stórkostleg mistök að Lagastofnun skuli ekki hafa verið falið þetta verkefni. Þá væri eitthvað skýrara, frú forseti, um hvað við erum að fara að greiða atkvæði, komist þessi þingsályktunartillaga í gegnum þingið.

Níu dýrmætir mánuðir hafa þarna farið til spillis. Meiri hlutinn lætur eins og allt sé á fullu við að samlesa og lagfæra, en svo er bara ekki. Þessi vetur fór algjörlega til spillis í þinginu við að koma þessu máli eitthvað áfram. Allt út af þrjósku hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, sem er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, því að þær telja að engin lögfræðielíta eigi að sjá um að skrifa stjórnarskrá. Svona er nú hrokinn mikill, frú forseti, en þetta hafa þær stöllur margoft sagt í ræðustól.

Þar sem hv. þm. Birgir Ármannsson ætlar að svara mér varðandi þær lagagreinar sem ég las upp, langar mig að bæta við grein sem ég fann ekki áðan, 36. gr., sem fjallar um dýravernd: Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda (Forseti hringir.) í útrýmingarhættu. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta hefur ratað inn í þessar tillögur? Hvernig á ríkið að sjá um slíka dýravernd?