140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég nefna það, í og með fyrir þingtíðindin og þannig að það sé nákvæmara, að sennilega var ákvörðun um að leita til Lagastofnunar Háskólans tekin í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd einhvern tímann í nóvember. Ef ég man rétt var það í kringum áramót eða fljótlega í janúar sem ljóst varð að hugmyndir Lagastofnunar og hugmyndir meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fóru ekki saman. Það sem lá á borðinu var að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar taldi að ekki mundi nást að láta Lagastofnun vinna þá vinnu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem fara ætti fram samhliða forsetakosningum 30. júní.

Síðan var þetta líka, að ég held, spurning um forræði á málinu. Lagastofnun taldi að vegna faglegs heiðurs þeirra fræðimanna sem mundu vinna verkið á hennar vegum væri nauðsynlegt að þeir hefðu nokkurt sjálfstæði í efnistökum og nálgun en eins og fram hefur komið hefur meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar viljað að þáttur sérfræðinganna væri takmarkaður við frekar þröngan lagatæknilegan ramma.

Varðandi þau ákvæði sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir spyr sérstaklega um vil ég geta þess að persónuleg skoðun mín er að það sé út í bláinn að hafa almennar óljósar stefnuyfirlýsingar af því tagi sem hún nefnir í stjórnarskrártexta. Stjórnarskrá er að mínu mati ekki vettvangur fyrir almennar pólitískar yfirlýsingar eða almennar yfirlýsingar um einhverja hluti. Þetta er lagatexti, grundvallarlög, og hann þarf að vera sæmilega skýr svo hægt sé að beita honum fyrir dómstólum.