140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:20]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram að ræða þær fjölmörgu breytingartillögur sem liggja fyrir. Hv. þingmaður er meðal annarra flutningsmaður að nokkrum þeirra.

Mig langar þó aðeins í upphafi að halda áfram með þá umræðu sem ég átti við hv. þingmann í andsvörum og varðaði fullveldisframsalið. Ég held að það sé hárrétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að fullveldisframsal getur verið með ýmsum hætti. Það er hægt að takmarka það mjög mikið og ég held að við eigum að leita leiða til þess.

Fyrsta breytingartillagan sem ég ætla að gera grein fyrir snýr að spurningu sem ég held að þurfi að spyrja. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem heimilað er að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana?“

Frú forseti. Stjórnarskráin er grunnurinn að fullveldi þjóðarinnar og öllu öðru sem við byggjum landið á. Það er mikilvægt fyrir þá vinnu sem fram undan er að það liggi skýrt fyrir hvort vilji sé til þess að fram fari frekara framsal á ríkisvaldi til alþjóðlegra stofnana. Ef menn ætla að fara af stað með einhvern spurningavagn fyrir þjóðina þá hlýtur þetta að vera ein af þeim lykilspurningum sem menn verða að leita svara við.

Það liggur ljóst fyrir að utanríkisráðherra og hv. þingflokkur Samfylkingarinnar hafa sótt það mjög fast að einhvers konar fullveldisafsalsmöguleiki fari í stjórnarskrána og Evrópusambandið hefur sjálft sagt að það sé grunnurinn að Evrópusambandsaðild. Evrópusambandið hefur ályktað þess efnis að það fagni því að breytingar á stjórnarskránni séu nú í farvatninu því að þær leiði það af sér að nauðsynlegt fullveldisafsal verði heimilt til að Ísland geti gengið í Evrópusambandið.

Miðað við hvernig landið liggur núna og þá gríðarlegu andstöðu sem er við yfirlýsta utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar meðal þjóðarinnar og í rauninni á þingi, því að það er ekki meirihlutastuðningur fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, þá verðum við að skoða þessi fullveldismál í því ljósi og átta okkur á hvort eðlilegt sé að setja einhvers konar heimild til fullveldisafsals í stjórnarskrána, hvort sem það yrði takmarkað, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson benti á í andsvari áðan og í ræðu sinni, eða hvort ekkert yrði opnað fyrir slíkt. Kann að vera að þjóðin vilji ekki neitt frekara fullveldisafsal í stjórnarskrána, hvort sem opnað yrði fyrir heimild til að það færi fram með þjóðaratkvæðagreiðslu eða öðru því um líku? Ég er ekkert viss um að þjóðin vilji veikja stjórnarskrána hvað þetta snertir.

Mér finnst þessi spurning eiga fyllilega rétt á sér og vil lýsa yfir fullum stuðningi við hana, ætli menn af stað með svona spurningavagn. Það er ekki verið að leggja það til að kosið verði um stjórnarskrá heldur er verið að spyrja ákveðinna spurninga. Mér finnst þessi spurning vera lykilspurning í þessu sambandi og lýsi yfir fullum stuðningi við breytingartillöguna.

Þá er það breytingartillaga sem flutt var af hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Vilt þú að þingmönnum verði fækkað úr 63 í 51?“ — Svo er bara já eða nei við því.

Frú forseti. Um þetta eru auðvitað skiptar skoðanir. Sumir segja að þingmenn eigi jafnvel að vera enn færri, aðrir segja að ekki megi fækka þingmönnum frekar. Ætli menn af stað með einhvern spurningavagn er sjálfsagt að velta því upp hvort eðlilegt sé að spyrja hvort vilji sé til að fækka þingmönnum úr 63 í 51. Ég hef ekki sterka skoðun á þessu máli en það væri fróðlegt að sjá þjóðarvilja fyrir þessari breytingartillögu.

Frú forseti. Ég ætlaði reyndar að gera grein fyrir fleiri breytingartillögum, eins og breytingartillögu Vigdísar Hauksdóttur um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB og nokkrar breytingartillögur sem snúa að landsbyggðinni og stöðu hinna dreifðu byggða í stjórnarskrá, en ég verð því miður að biðja frú forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá svo að ég geti (Forseti hringir.) rætt þessar breytingartillögur og sett þær í samhengi við málið.