140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:35]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Í þeirri umræðu sem um málið hefur staðið hefur verið farið mjög víða um eins og efni gefur tilefni til. Þó fannst mér bera töluvert á því að menn væru farnir að ræða efnislegt inntak stjórnarskrár, eins og við værum með fyrir okkur tillögu að breyttri stjórnarskrá eða nýrri stjórnarskrá. Því er alls ekki að heilsa. Hér er einungis verið að fjalla um þingsályktunartillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og það er kannski þess vegna sem fram eru komnar töluvert margar breytingartillögur, m.a. frá fulltrúum Framsóknarflokksins á þingi. Ég vil staldra aðeins við sérstaklega þrjár breytingartillögur sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flytur og eru af ýmsum toga en eru dálítið opnar, ekki endilega í báða enda en töluvert opnar sem gefur tilefni til að spyrja hvernig hv. þingmaður telur þær falla að þeirri breytingartillögu sem við höfum fengið í hendur frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að þær koma með dálítið öðru móti að þessu máli en spurningavagninn í þeim sex tillögum sem liggja fyrir frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er til dæmis varðandi skiljanleika ákvæða stjórnarskrárinnar og framkvæmd ýmissa ákvæða og þá sátt sem nauðsynleg er að mati hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem þarf að ríkja um stjórnarskrána og einstök ákvæði hennar. Það væri því ágætt að heyra nálgun hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar á þessum tillögum.