140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki veit ég hvað gerist innan veggja Vatíkansins eða hvernig þeir ná á endanum að senda út hvítan reyk. Því miður held ég reyndar að þeir alþingismenn sem fengju það hlutverk yrðu býsna þaulsetnir, við þyrftum örugglega að bíða nokkuð lengi eftir því að sjá hvítan reyk liðast upp um skorsteininn. Þetta er eins og umræðan um gjaldmiðilinn, ég verð bara að viðurkenna að stundum verður maður alveg hringlandi ruglaður í þeirri umræðu þegar maður hlustar á hvern hagfræðinginn á fætur öðrum koma með aðra lausn en sá á undan var með. Mér dettur stundum í hug að það mundi seint ganga að láta slíka menn ráða öllu hér á landi. Nú er ég líklega búinn að móðga alla hagfræðinga á Íslandi en það verður þá bara að hafa það.

Ég held hins vegar að það atriði sem hv. þingmaður bendir á sé mjög mikilvægt. Hvað gerist ef ekki tekst að mynda ríkisstjórn? Ef við höfum efasemdir um tillögu stjórnlagaráðs, um að á ný beri að boða til kosninga, þá er mjög mikilvægt að við komum fram með einhverja aðra hugmynd um það hvað eigi að taka við.

Nú verð ég að viðurkenna að ég kann ekki alveg þær athugasemdir sem hv. þingmaður lagði inn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en ég veit að þær mælast í tugum blaðsíðna. Mér finnst einhvern veginn eins og það að boða til kosninga sé hálfgerð uppgjöf en einhvern varnagla verður klárlega að slá. Á meðan ég hef ekki aðra lausn þá ætla ég í sjálfu sér ekki að segja að þetta ákvæði sé það vitlausasta í tillögum stjórnlagaráðs. Það stendur þá upp á okkur að koma með aðrar hugmyndir.