140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:03]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er mjög hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum um sem flesta þætti og því að þjóðin komi að sem flestum atriðum sem verið er að fjalla um, að leiðin sé sem greiðust og virkust. En einn megingallinn á tillögum stjórnlagaráðs er sá að lagt er til að þrengja þá möguleika sem nú eru til staðar hvað varðar aðkomu þjóðarinnar, t.d. hvað varðar þjóðréttarlegar skuldbindingar og framsal á fullveldi.

Við höfum heimild til staðar og henni var beitt varðandi Icesave-samninginn. Úr tillögum stjórnlagaráðs má hins vegar lesa að það yrði ekki heimilt, þ.e. ef menn segja já við öllum tillögum sem þar eru á ferð.

Ég legg til að spurningarnar séu hafðar heldur fleiri en færri til þess að þjóðin geti sagt skoðun sína í hinu stóra samhengi, ekki einungis svona óskaplega þröngt eins og lagt er upp með. Ég hef því lagt til, ásamt fleiri þingmönnum, að til viðbótar þeim spurningum sem þarna eru lagðar fram yrði spurt: Vilt þú að tryggt sé að í stjórnarskrá sé kveðið á um jafnræði allra landsmanna þegar kemur að opinberri þjónustu óháð búsetu? Við vitum að þannig er það ekki núna.

Ég hefði líka viljað spyrja: Vilt þú að tryggt sé í stjórnarskrá jafnræði allra landsmanna þegar kemur að þátttöku í ákvarðanatöku og trúnaðarstörfum vegna hins opinbera óháð búsetu? Við vitum að það er býsna mikið óhagræði fyrir fólk sem býr úti á landi, hvort sem er á Akureyri, Sauðárkróki, Egilsstöðum eða á Vestfjörðum, að taka með jafnvirkum hætti og aðrir þátt í stjórnarathöfnum eða nefndarsetum sem nánast allar eru í Reykjavík. Þennan aðstöðumun þarf að jafna.