140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugaverður punktur sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kemur inn á. Ég ætla að nefna fyrst um vinnu þingmannanefndarinnar og umræðu um breytingar á stjórnarskrá, að ég minnist þess ekki að menn hafi rætt að einstökum greinum þyrfti að breyta. Hins vegar þótti eðlilegt að stjórnarskráin yrði tekin upp í tengslum við heildarendurskoðun á ýmsum lögum eftir hrunið.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að þjóðin greiðir ekki atkvæði í haust, í raun má kalla þetta skoðanakönnun, það verður sendur út spurningavagn eða eitthvað því um líkt. Það sem mér finnst athugavert við það er að á sama tíma er verið að vinna ákveðna vinnu sem ég held að hefði verið eðlilegra að klára áður en menn sendu út spurningarnar, við sjáum það af þeim fjölda breytingartillagna sem hafa komið fram. Ég segi alveg eins og er að á þessu stigi málsins, ef við ætlum að fara þessa leið, sé í sjálfu sér betra að senda út fleiri spurningar en færri og fá einhverja leiðsögn frá þjóðinni um þau atriði.

Þá leið sem hv. þingmaður bendir á og þá útfærslu sem hann hefur kynnt viðurkenni ég að ég hef ekki kynnt mér í þaula. Hún hefur hins vegar nokkra samsvörun með þeim tveimur leiðum sem Björg Thorarensen prófessor bendir á í minnisblaðinu sem ég hef minnst á áður. Önnur leiðin er sú sem var farin 1942, að breyta stjórnarskránni fyrir fram þannig að það megi leggja fram bindandi tillögur fyrir þjóðina sem Alþingi staðfestir síðan með samþykkt sinni að séu orðnar að stjórnarskrá. Þar með er ferlið gengið til enda og þjóðin hefur sagt sitt álit.

Ég benti hins vegar á í ræðu minni að ég efaðist um að sams konar samhljómur næðist nú eins og þá vegna þess að menn hafa ekki náð víðtækri sátt um málið í undirbúningnum.