140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurður I. Jóhannsson kom inn á það í upphafi ræðu sinnar að þegar verið var að fara yfir tillögu stjórnlagaráðs kom upp að greinargerðin með þeim væri kannski ekki alveg í samræmi við tillögurnar. Það er kannski ekki aðalmálið en mig langar að spyrja hann út í þetta. Við munum eftir þingsetningunni 1. október þegar forseti lýðveldisins ávarpaði þingið og útlistaði hvað hann læsi út úr tillögum stjórnlagaráðs um hlutverk hans, hvernig hann kæmi að myndun ríkisstjórnar, gæti kallað til einstaka þingmenn eða einstaka þingflokka og gert síðan tillögu um forsætisráðherra og þar fram eftir götunum.

Síðan hefur komið fram að minnsta kosti einn hv. þingmaður sem telur þetta ekki réttan skilning hjá forsetanum. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort túlka megi tillögur stjórnlagaráðs á svo mismunandi vegu eins og hv. þingmaður lét liggja að í ræðu sinni um greinargerðina.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann um tillögur stjórnlagaráðs eins og þær komu inn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og það sem nefndin leggur síðan til, hann gerði þetta líka að umtalsefni í ræðu sinni. Getur hv. þingmaður tekið undir með mér um að eðlilegra hefði verið að taka þær tillögur stjórnlagaráðs sem samstaða væri um í þinginu og setja þær til hliðar og leggja þá afmarkaðri tillögur fram í þjóðaratkvæðagreiðslu til að fá fram skýrari vilja þjóðarinnar gagnvart þeim?