140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:29]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi mismunandi túlkanir var gott dæmi um það þegar forseti lýðveldisins kom hér á þingsetningardaginn og tjáði þann skilning sem hann lagði í breytingarnar. Þá leið auðvitað ekki á löngu þar til ansi margir komu fram, m.a. þeir sem sömdu þessar breytingar, og töldu að þetta væri ekki rétt túlkun.

Ég nefndi í fyrri ræðu minni í dag að ég hefði verið á ráðstefnu hjá Landssamtökum landeigenda þar sem fjallað var vernd eignarréttar og náttúruauðlindir í þjóðareign. Þar voru sérfræðingar eins og Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður, Róbert Spanó prófessor og fleiri sem fjölluðu um þessi mál. Þeir sögðu að eins og þeir læsu þetta væri munurinn á þeirri grein sem þetta varðar í núgildandi stjórnarskrá og eins og hún væri í tillögu stjórnlagaráðs, kannski enginn. Ef menn læsu hins vegar greinargerðina kæmu upp fullt af spurningum. Þeir töldu að í kjölfarið yrði erfitt fyrir dómstóla að túlka ákvæðið og það mundi hugsanlega valda óróa og auknu álagi á dómstóla landsins. Menn mundu einmitt láta reyna á þetta vegna þess að það væru mismunandi túlkanir uppi. Þeir bentu reyndar jafnframt á, fyrir þá sem óttuðust að þarna væri verið að minnka eignarréttinn, að menn þyrftu ekki að óttast það vegna þess að 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu tryggði ævinlega þann rétt. En hugsanlega mundi þetta þýða að menn þyrftu að ganga miklu lengra og í erfiðara dómstólaferli til að verja eignarrétt sinn sem er í dag kannski öllum ljós og menn deila ekki um.