140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem hv. þingmaður náði kannski ekki að svara seinni hluta spurningar minnar vil ég ítreka hana en ég hafði lítinn tíma til að bera hana fram í lok andsvars míns áðan.

Ég hef verið dálítið hugsi um meðferðina á tillögum stjórnlagaráðs. Ugglaust hafa menn ólíkar skoðanir á einstaka greinum og útfærslum. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að mikilvægt er eins og komið hefur fram að það sé samræmi á milli greinargerðarinnar og tillagnanna þannig að það liggi alveg fyrir hvernig beri að túlka þær og hver skilningur stjórnlagaráðsins á þeim er.

Það sem ég spurði um í seinni spurningu minni var hvort ekki hefði verið skynsamlegra að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði farið yfir tillögurnar og reynt að afmarka þær dálítið, skorið í burtu þá kafla sem mundi nást sátt um og samstaða í þinginu, það hefði verið tekin umræða um þá og þar af leiðandi væri búið að taka þá til hliðar. Hugsanlega væri ágreiningur um einstakar greinar þótt ég átti mig ekki á því hvernig hlutföllin yrðu. En þá, þegar þeirri vinnu væri lokið, væri hægt að fara fram með miklu markvissari spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu en hér er gert. Nú stendur valið í raun um að annaðhvort samþykkja eða hafna. Fólk getur kannski verið mjög sátt við 70% af tillögum stjórnlagaráðs en hugsanlega haft efasemdir um 30%. Það verður að vega og meta hvort það eigi að styðja alla tillöguna í heild eða hafna. Hefði ekki verið skynsamlegra að afmarka þetta betur í vinnunni þannig að hægt væri að fá afgerandi niðurstöðu en ekki svona opna eins og stefnir í? Það er bara hægt að segja já eða nei, hvort sem maður er sáttur við hluta af tillögum stjórnlagaráðs eða ekki.