140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili þessum áhyggjum hv. þingmanns. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, hefur reyndar sagt hér í ræðu að menn eigi ekki að velta sér of mikið upp úr orðalagi spurninganna, það sé ekki tilgangurinn með þessari atkvæðagreiðslu að kanna hug kjósenda til tiltekinna liða stjórnarskrárinnar, miklu frekar sé hugsunin sú að kanna viðhorf almennings til hugmyndafræðinnar á bak við ritun stjórnarskrár, hvers konar hugmyndafræði menn vilji leggja til grundvallar þegar síðan verður skrifuð ný stjórnarskrá.

Þess vegna hef ég lagt fram breytingartillögur. Ef menn ákveða að fara út í þetta, sjá tilgang í því að kanna sérstaklega hvaða skoðun fólk hefur á hugmyndafræðinni við gerð stjórnarskrár, vil ég að spurt verði grundvallarspurninga, þar með talið spurningarinnar: Vilt þú að stjórnarskrá Íslands innihaldi eingöngu ákvæði sem eru framkvæmanleg? Þetta mundu eflaust einhverjir telja sjálfsagt mál og ekki þyrfti að spyrja um það, en eftir umræðuna um stjórnarskrárbreytingar veitir greinilega ekki af því að spyrja almenning álits á þessu vegna þess að sumir hv. þingmenn virðast telja að stjórnarskrá megi innihalda ákvæði um hvernig menn vilji helst að heimurinn sé, hvort sem hægt er að hafa hlutina svoleiðis eða ekki, og ákvæði um það hvernig líf fólks ætti helst að vera, hvort sem ríkisvaldið er í aðstöðu til þess að koma til móts við fólk eða ekki.

Því spyr ég hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um það að stjórnarskrá þurfi að innihalda eingöngu ákvæði sem eru framkvæmanleg (Forseti hringir.) og hvort ekki sé rétt að spyrja þá um það ef ágreiningur er um það í þinginu.