140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er verulega veigamikið. Ef eitthvert ákvæði í stjórnarskrá er þess eðlis, eins og ákvæðið um heilbrigðisþjónustuna sem er bara út úr kú, að ekki er hægt að framkvæma það þá rýrnar virðing almennings fyrir stjórnarskránni. Það gerist ef dómstólar segja: Þetta ákvæði hefur ekkert gildi, það er ekki hægt að framkvæma það. Þetta á til dæmis við um ákvæðið um lágmarkslaun. Á ríkið að tryggja öll laun í landinu eða hvernig sjá menn það? Ef eitthvert ákvæði er þannig að ekki er hægt að framkvæma það minnkar álit og virðing almennings fyrir stjórnarskránni og það er mjög slæmt.

Ég hélt að hv. þingmaður mundi koma inn á það sem ég taldi eiginlega vera áhugaverðast og er í 40 síðna umsögn minni til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem þingmaður hefur skrifað umsögn til nefndar Alþingi. Ég vil nefnilega að 80% þjóðarinnar skilji stjórnarskrána. Það á ekki að þurfa lögspekinga til að segja fólki hvað ákvæðin þýða eins og reyndist með 26. gr. á sínum tíma þegar var verið að tala um fjölmiðlafrumvarpið. Þá komu fram þrjár mjög lærðar ritgerðir um 26. gr. og meðan ég las þær var ég hjartanlega sammála þeim hverri um sig en þær voru allar í kross.